2009-04-15

Meira um heilsu óháð holdafari

Heilsa óháð holdafari (Health At Every Size) er ný nálgun að heilbrigði þar sem áhersla er lögð á heilbrigðar lífsvenjur, bætta sjálfsmynd og aukna vellíðan án áherslu á þyngd eða líkamsvöxt. Þessi hugmyndafræði er sprottin út frá óánægju með ríkjandi nálgun þar sem heilsuefling er samofin áherslu á þyngdarstjórnun. Rannsóknir sem sýna mikla erfiðleika við að ná langvarandi þyngdartapi, ýmis vandamál í tengslum við þyngdartap og þyngdarsveiflur og betri afkomulíkur meðal þeirra sem temja sér heilsusamlegri lífsvenjur þrátt fyrir litlar breytingar á þyngd benda allar til þess að ríkjandi áherslur séu rangar. Af þeim sökum hafa fræðimenn og fagaðilar víðsvegar um heim mælst til þess að ný stefna verði tekin upp þar sem áhersla verði lögð á lífsvenjur og heilsu en ekki holdafar sem slíkt. Þetta sjónarmið felur í sér byltingarkennda viðhorfsbreytingu gagnvart heilbrigði, þar sem hvorki er gert ráð fyrir því að grannur líkami sé forsenda góðrar heilsu né að þyngdartap þurfi að vera markmið heilsueflingar.

Ýmisleg bendir til þess að slík heilbrigðisstefna yrði heillavænlegri en sú sem nú er við lýði. Til dæmis er enginn undanskilinn nauðsyn þess að lifa heilbrigðu lífi ef áhersla er lögð á heilsu en ekki holdafar. Þegar þyngdartap er helsta markmið hollra lífshátta hafa þeir sem eru grannir frá náttúrunnar hendi litla ástæðu til þess að huga að matarvenjum sínum eða hreyfingu. Þeir hreykja sér þvert á móti af því að geta borðað hvað sem er án þess að fitna. Að líta á holdarfar sem mælistiku á heilbrigði gefur grönnu fólki falska öryggiskennd og letur það til þess að tileinka sér heilbrigðari lífsvenjur. Þetta getur haft afdrifaríkar afleiðingar þar sem rannsóknir sýna að kyrrsetufólk lifir skemur en þeir sem stunda reglulega hreyfingu óháð þyngd. Auk þess eru margir lífsstílstengdir kvillar grönnu fólki hættumeiri en þeim sem eru feitari.


Markmið almennrar heilsueflingar hlýtur að vera að fólk geri varanlegar breytingar á lífsvenjum sínum. Áhersla á þyngdartap er á margan hátt andstæð slíku markmiði. Þar sem fæstum tekst að grennast til frambúðar er algengt að fólk gefist upp á hollum lífsháttum þegar megrunartilraunirþeirra renna út í sandinn. Þar sem við höfum mun meiri stjórn á hegðun okkar en holdarfari er líklegra að jákvæðar breytingar verði varanlegar þegar heilsusamlegur lífsstíll er markmið í sjálfu sér.

Þessu til stuðnings sýndi nýleg rannsókn að brottfall úr meðferð sem byggðist á heilsu óháð holdarfari (Health At Every Size) var mun minna en í hefðbundinni þyngdartapsmeðferð (þ.e. megrun). Rannsakendur skiptu feitum konum með tilviljunaraðferð í tvo hópa sem fóru annað hvort í megrun (hollt mataræði, hreyfing, atferlismótun) eða meðferð sem byggðist á heilsu óháð holdarfari. Niðurstöður sýndu að þrátt fyrir að einungis konur í megrunarhóp hefðu grennst þá uppskáru báðir hópar svipaða heilsubót af þátttöku sinni, svo sem lægri blóðþrýsting, minnkaðar blóðfitur, bættar matarvenjur og betri líðan. Mun fleiri luku hins vegar við meðferð í heilsu óháð holdarfari-hópnum, en brottfall var aðeins 8% á móti 41% meðal þeirra sem voru í megrunarhóp.

Við tveggja ára eftirfylgd kom í ljós að nær allar af þeim jákvæðu breytingum sem orðið höfðu á líðan og heilsu kvennanna voru enn til staðar meðal þeirra sem breyttu um lífsvenjur án þess að reyna að grennast—en ekki meðal þeirra sem fóru í megrun. Til dæmis höfðu konur í fyrrnefnda hópnum haldið bættum matarvenjum og aukinni hreyfingu en þær í síðarnefnda hópnum höfðu smátt og smátt horfið aftur til fyrri lífsvenja. Eins og við var að búast höfðu konur í megrunarhópnum einnig náð aftur sinni upprunalegu þyngd. Konur í heilsu óháð holdarfari-hópnum höfðu hins vegar lægri blóðþrýsting og blóðfitur, færri þunglyndiseinkenni og meiri sjálfsvirðingu tveimur árum seinna. Þessar niðurstöður sýna ekki aðeins að hægt er að bæta heilsuna án þess að grennast heldur einnig að hvatning til heilbrigðari lífshátta án áherslu á holdafar eykur líkur á því að fólk haldi bættum lífsvenjum og betri heilsu til lengri tíma.




Heimildir:

Bacon, L., Stern, J. S., Van Loan, M. D. og Keim, N. L. (2005). Size acceptance and intuitive eating improves health for obese, female chronic dieters. Journal of the American Dietetic Association 105, 929-936.

Barlow, C. E., Kohl, H. W., Gibbons, L. W. og Blair, S. N. (1995). Physical fitness, mortality and obesity. International Journal of Obesity19S41-S44.  

Berg, F. M. (1999). Health risks associated with weight loss and obesity treatment programs.Journal of Social Issues, 55, 277-297.

Cogan, J. C. og Ernsberger, P. (1999). Dieting, weight, and health: Reconceptualizing research and policy. Journal of Social Issues, 55, 187-205.

Mann, T.A., Tomyama, J., Westling, E., Lew, A.M., Samuels, B. og Chatman, J. (2007).  Medicare's search for effective obesity treatment: Diets are not the answer. American Psychologist, 62, 220-233.  

Korkeila, M., Rissanen, A., Kaprio, J., Sørensen, T. I., Koskenvuo, M. (1999). Weight-loss attempts and risk of major weight gain: A prospective study in Finnish Adults. American Journal of Clinical Nutrition, 70, 965-975.



No comments:

Post a Comment