2009-03-13

Slagurinn er hafinn


Ég hef hugsað lengi um að byrja að blogga, en eins og svo oft þegar manni liggur mikið á hjarta, þá veit maður ekki hvar maður á að byrja. Nú hef ég hins vegar ákveðið að láta slag standa.

Þetta blogg á að vera um fitu. Fitu sem heilbrigðismál. Fitu sem félagslegt fyrirbæri. Fitu sem mannréttindamál. Hér verður fjallað um allar þær óskrifuðu reglur sem ríkja í kringum okkur um líkamsvöxt og útlit og rætt á gagnrýninn máta um það sem tengist þessu efni hverju sinni.

Ég held að fæstir geri sér grein fyrir því hvað fita leikur stórt hlutverk í lífi þeirra. Öll erum við alin upp við að fita sé slæm, ljót, heilsuspillandi og merki um persónulegan veikleika. Það er erfitt að ná fullorðinsaldri í okkar heimshluta og líta fitu, hvort sem er okkar eigin eða annarra, jákvæðum augum eða hlutlausum augum. Vonandi verður þetta blogg liður í að breyta því.

Hér verður líka fjallað um líkamsvirðingu, orðið sem ég bjó til þegar ég var að reyna að koma orðum yfir hvað það er sem ég er að berjast fyrir. Mig dreymir um veröld þar sem allir njóta sömu virðingar óháð líkamsvexti. Þar sem sú staðreynd að líkamar fólks eru mismunandi er viðurkennd á sama hátt og við viðurkennum að hárlitur og skóstærð fólks er misjöfn. Þar sem fólk fær tækifæri til að líða vel í líkama sínum, þykja vænt um hann og hugsa vel um hann alla ævi. Í slíkri veröld er enginn litinn hornauga vegna holdafarsins, engin ástæða er til þess að skammast sín fyrir líkama sinn og átraskanir og hættulegar megrunar- og fegrunaraðgerðir heyra sögunni til, enda enginn tilgangur með því að nota öfgafullar aðferðir til að breyta líkama sínum þegar það hefur enga félagslega þýðingu.

6 comments:

  1. Flott hjá þér, þú stendur þig vel
    kv Íris

    ReplyDelete
  2. en skemmtilegt og spennandi. ég hlakka mikið til að verða dyggur lesandi!

    ReplyDelete
  3. Til hamingju með bloggið þitt Sigrún mín. Gott að það er til fólk eins og þú þarna úti. Kær kveðja, Raggý

    ReplyDelete
  4. Gott ad tú lést loks verda af tessu stóra systir! Veist ad ég stend med tér og mun gera mitt í ad "spread the word";)

    p.s. Mæli sérstaklega med "wake up-I'm fat!" af listanum yfir ´hugaverdar bækur, hún er alveg hreint ædislega, hrein skemmtilesning!!

    ReplyDelete
  5. Sæl kæra systir

    Flott blogg hjá þér. Strax byrjaður að auglýsa það inná Facebook. Bæti líka við link á þig á blogginu mínu.

    ReplyDelete