2009-04-03

Ég hlakka til þegar ég verð orðinn gamall og þetta hættir...


Um daginn var á dagskrá áhugaverður heimildarþáttur á RÚV um gildi hreyfingar fyrir aldraða. Mjög hressandi að sjá fjallað um hreyfingu á þennan hátt - án nokkurrar líkamsþráhyggju. Það er nákvæmlega svona sem maður myndi nálgast hreyfingu út frá Heilsu óháð holdafari. Hreyfing á að vera skemmtileg og ánægjuleg. Hún hefur það markmið að manni líði vel og sé hraustur og glaður. Hreyfing ætti ekki að vera þjáning eða kvöð sem maður lætur sig hafa í von um grennri og stæltari líkama. Sannleikurinn er sá að aukin hreyfing skilar sjaldnast stórkostlegri útlitslegri umbreytingu. Helsti ávinningurinn er aukið þrek, úthald, orka og hreyfanleiki, aukin vellíðan og lífsgleði. Fólk verður síður veikt og líkaminn virkar betur. Merkilegt að þennan heilbrigða og skynsamlega fókus í sambandi við heilsurækt sé aðeins að finna meðal aldraðra. Þýðir þetta að við hin verðum að láta okkur lynda stöðugt fjas um fitumælingar og þyngdartap þangað til við komumst á elliár? 

1 comment:

  1. við hin verðum að láta fjasið sem vind um eyru þjóta. VERÐUM!

    frábær færsla...

    ReplyDelete